Andið eðlilega hlaut HBO áhorfendaverðlaun á Provincetown kvikmyndahátíðinni
Andið eðlilega, kvikmynd Ísoldar Uggadóttur, hlaut HBO áhorfendaverðlaunin fyrir bestu leiknu kvikmynd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Provincetown í Bandaríkjunum. Ísold var viðstödd hátíðina og veitti verðlaununum viðtöku.
Nýverið var myndin valin til þátttöku á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Karlovy Vary í Tékklandi, einni af fáum svokölluðum „A“ hátíðum í heiminum.
Andið eðlilega hefur nú unnið til þrennra alþjóðlegra verðlauna. Hún var heimsfrumsýnd á hinni virtu Sundance kvikmyndahátíð í Bandaríkjunum, þar sem Ísold Uggadóttir var valin besti erlendi leikstjórinn. Skömmu síðar tók myndin þátt á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg í Svíþjóð, þar sem myndin vann FIPRESCI verðlaun hátíðarinnar.
Um myndina
Andið eðlilega fléttar saman sögum tveggja ólíkra kvenna, hælisleitanda frá Gíneu-Bissá og ungrar íslenskrar konu sem hefur störf við vegabréfaskoðun á Keflavíkurflugvelli. Leiðir þeirra liggja saman á örlagastundu í lífi beggja og tengjast þær óvæntum böndum.
Ísold Uggadóttir er eins og áður segir leikstjóri og einnig handritshöfundur myndarinnar. Með aðalhlutverk fara leikkonurnar Kristín Þóra Haraldsdóttir og Babetida Sadjo.
Skúli Fr. Malmquist framleiðir Andið eðlilega fyrir hönd Zik Zak kvikmynda, en meðframleiðendur eru þær Inga Lind Karlsdóttir, Lilja Ósk Snorradóttir og Birna Anna Björnsdóttir, auk meðframleiðenda frá Belgíu og Svíþjóð.
Andið eðlilega var frumsýnd á Íslandi 2. mars síðastliðinn og er núna í sýningum í Bíó Paradís með enskum texta.
The Match Factory sér um sölu og dreifingu á heimsvísu.