Um KMÍ
Á döfinni

28.1.2018

Ísold Uggadóttir valin besti erlendi leikstjórinn á Sundance hátíðinni

Ísold Uggadóttir var valin besti erlendi leikstjórinn á hinni virtu Sundance kvikmyndahátíð fyrir kvikmynd sína Andið eðlilega. Myndin var ein af aðeins 12 kvikmyndum framleiddum utan Bandaríkjanna sem var valin til þátttöku í World Cinema Dramatic Competition, annarri af tveimur aðalkeppnum hátíðarinnar. Þetta er í fyrsta sinn sem íslensk kvikmynd vinnur til verðlauna á Sundance hátíðinni, og aðeins í annað skipti sem íslensk mynd er valin í aðalkeppni hátíðarinnar.

Ísold var viðstödd hátíðina og veitti verðlaununum viðtöku. Andið eðlilega var heimsfrumsýnd á hátíðinni þann 22. janúar að Ísold viðstaddri ásamt öðrum helstu aðstandendum myndarinnar.

Andið eðlilega er fyrsta kvikmynd Ísoldar í fullri lengd. Áður hefur hún leikstýrt stuttmyndunum Góðir gestirNjálsgata, Clean og Útrás Reykjavík, sem allar voru valdar til sýninga á kvikmyndahátíðum víða um heim og hlutu fjölda viðurkenninga. Ísold lauk meistaranámi í leikstjórn og handritagerð frá Columbia háskóla í New York vorið 2011.

Myndin hlaut góðar viðtökur á hátíðinni og hefur hlotið lofsamlega dóma hjá vinum virtu tímaritum Variety og Screen Daily.

Um myndina

Andið eðlilega fléttar saman sögum tveggja ólíkra kvenna, hælisleitanda frá Gíneu-Bissá og ungrar íslenskrar konu sem hefur störf við vegabréfaskoðun á Keflavíkurflugvelli. Leiðir þeirra liggja saman á örlagastundu í lífi beggja og tengjast þær óvæntum böndum.

Ísold Uggadóttir er eins og áður segir leikstjóri og einnig handritshöfundur myndarinnar. Með aðalhlutverk fara leikkonurnar Kristín Þóra Haraldsdóttir og Babetida Sadjo.

Skúli Fr. Malmquist framleiðir Andið eðlilega fyrir hönd Zik Zak kvikmynda, en meðframleiðendur eru þær Inga Lind Karlsdóttir, Lilja Ósk Snorradóttir og Birna Anna Björnsdóttir, auk meðframleiðenda frá Belgíu og Svíþjóð. 

Næst mun myndin ferðast til kvikmyndahátíðarinnar í Gautaborg, þar sem hún mun taka þátt í aðalkeppni hátíðarinnar.

Andið eðlilega verður frumsýnd á Íslandi 2. mars næstkomandi.

The Match Factory sér um sölu og dreifingu á heimsvísu.

Sundance kvikmyndahátíðin

Sundance kvikmyndahátíðin var stofnuð af leikaranum og leikstjóranum Robert Redford og telst ein virtasta kvikmyndahátíð Norður Ameríku. Á meðal leikstjóra sem hófu frægðargöngu sína á Sundance eru Paul Thomas Anderson, Jim Jarmusch, Steven Soderbergh, Wes Anderson, Darren Aronofsky, Quentin Tarantino og Coen bræður.

Árið 2004 tók kvikmyndin One Point O, bandarísk/rúmensk/íslensk meðframleiðsla eftir Martein Þórsson og Jeff Renfroe, þátt í aðalkeppni hátíðarinnar fyrir bandarískar myndir. Myndin var meðframleidd af Friðriki Þór Friðrikssyni.