Um KMÍ
Á döfinni

5.2.2018

Vetrarbræður vann níu Robert verðlaun – vann fyrir bestu mynd og besta leikstjóra

Vetrarbræður, hin dansk/íslenska fyrsta kvikmynd Hlyns Pálmasonar í fullri lengd, vann níu Robert verðlaun á verðlaunaafhendingu Dönsku kvikmyndaakademíunnar í gær. Myndin var valin besta myndin og Hlynur var valinn besti leikstjórinn. Myndin hlaut flest allra Robert verðlauna í ár.

Auk þess að vinna fyrir bestu mynd og besta leikstjóra vann myndin Robert verðlaun fyrir besta leikara í aðalhlutverki (Elliott Crosset Hove), bestu leikkonu í aukahlutverki (Victoria Carmen Sonne), bestu kvikmyndatöku (Maria von Hausswolff), bestu leikmynd (Gustav Pontoppidan), bestu búninga (Nina Grønlund), bestu förðun (Katrine Tersgov) og bestu hljóðhönnun (Lars Halvorsen).

Nýlega hlaut Vetrarbræður þrjár tilnefningar til Bodil verðlaunanna, verðlaunaafhendingu Danskra kvikmyndagagnrýnenda, þar á meðal fyrir bestu mynd og besta leikara í aðalhlutverki. Bodil verðlaunin munu fara fram 17. mars næstkomandi.

Myndin hefur fengið frábærar viðtökur danskra gagnrýnenda og var m.a. valin besta mynd ársins hjá kvikmyndatímaritinu Ekko og var í öðru sæti yfir bestu myndir ársins hjá Politiken dagblaðinu.

Vetrarbræður hefur unnið til 13 alþjóðlegra verðlauna síðan hún var heimsfrumsýnd á hinni virtu Locarno kvikmyndahátíð í Sviss í ágúst síðastliðnum, þar sem fjögur verðlaunanna unnust.

Næst á dagskrá hjá Hlyni er áframhaldandi þróun sinnar næstu kvikmyndar, Hvítur, hvítur dagur, sem áætlað er að fari í tökur í ágúst á þessu ári.

Verkefnið vann nýverið til ARTE verðlaunanna á CineMart, samframleiðslumarkaði hinnar virtu Rotterdam kvikmyndahátíðar.

Hvítur, hvítur dagur heldur næst til samframleiðslumarkaðs hinnar virtu Berlinale kvikmyndahátíðiar í Berlín, þar sem hún er eitt af einungis tveimur verkefnum sem valin hafa verið í svokallaða Rotterdam-Berlinale Express. Samframleiðslumarkaðurinn í Berlín hefst 16. febrúar þar sem verkefnið verður kynnt.