Undir trénu framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2018
Meðlimir Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar hafa valið kvikmyndina Undir trénu undir leikstjórn Hafsteins Gunnars Sigurðssonar sem framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna á næsta ári. Bandaríska kvikmyndaakademían mun velja níu kvikmyndir á stuttlista í lok árs 2017 og endanlegar tilnefningar á þeim fimm kvikmyndum sem munu keppa um Óskarsverðlaunin fyrir bestu erlendu kvikmynd verða kunngjörðar snemma á næsta ári.
Undir trénu hlaut meirihluta atkvæða Akademíumeðlima en kosningu lauk á miðnætti í gær. Kosningin fór fram rafrænt og kosið var á milli þeirra fjögurra íslensku kvikmynda sem uppfylltu það skilyrði bandarísku kvikmyndaakademíunnar að hafa verið frumsýndar á tímabilinu 1. október 2016 til 20. september 2017.
Undir trénu fjallar um Agnesi sem grípur Atla við að horfa á gamalt kynlífsmyndband, hendir honum út og meinar honum að umgangast 4 ára dóttur þeirra. Atli flytur inn á foreldra sína sem eiga í deilu við fólkið í næsta húsi. Stórt og fagurt tré sem stendur í garði foreldranna skyggir á garð nágrannanna, sem eru orðnir langþreyttir á að fá ekki sól á pallinn. Á sama tíma og Atli berst fyrir umgengni við dóttur sína verður deilan um tréð sífellt harðari. Eignaspjöll eru framin og gæludýr hverfa á dularfullan hátt þegar sögusagnir um mann með keðjusög fara á kreik.
Hafsteinn Gunnar Sigurðsson (Á annan veg, París norðursins) leikstýrir Undir trénu og skrifar handritið ásamt Huldari Breiðfjörð. Framleiðendur myndarinnar eru Grímar Jónsson, Sindri Páll Kjartansson og Þórir Snær Sigurjónsson fyrir hönd Netop Films á Íslandi og erlendir meðframleiðendur koma frá Danmörku, Póllandi og Þýskalandi.
Með sölu og dreifingu erlendis fer fyrirtækið New Europe Film Sales (jan@neweuropefilmsales.com)
Undir trénu var heimsfrumsýnd í Orrizonti hluta kvikmyndahátíðarinnar í Feneyjum þann 31. ágúst síðastliðinn. Stuttu síðar var hún sýnd í Contemporary World Cinema hluta alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Toronto. Næst mun myndin ferðast til kvikmyndahátíðarinnar í Zürich og alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Chicago.
Myndin hefur hlotið lofsamlega dóma, þar á meðal hjá hinum virtu tímaritum Screen International, Variety og The Hollywood Reporter.
Myndin var frumsýnd hérlendis þann 6. september síðastliðinn og hafa rúmlega 21.000 manns séð hana í íslenskum kvikmyndahúsum.
Tvær íslenskar kvikmyndir hafa hlotið tilnefningu til Óskarsverðlaunanna. Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson var tilnefnd árið 1992 í flokknum besta erlenda kvikmyndin og árið 2006 var Síðasti bærinn eftir Rúnar Rúnarsson tilnefnd í flokknum besta leikna stuttmyndin.