Um KMÍ
Á döfinni
  • KMI_logo_171203

10.6.2020

Nýir starfsmenn hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands

Umsóknum um styrki úr Kvikmyndasjóði hefur fjölgað mikið undanfarin misseri og sérstaklega þetta ár sem rekja má m.a. til áhrifa Covid-19 heimsfaraldursins. Sama á við umsóknir úr endurgreiðslukerfi vegna kvikmyndaframleiðslu en KMÍ annast þær umsóknir samkvæmt sérstöku samkomulagi við atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið. Til að anna þessum vaxandi fjölda umsókna var nýlega fjölgað með ráðningu leikstjóranna Grétu Ólafsdóttur og Guðnýjar Halldórsdóttur í störf kvikmyndaráðgjafa. Þá hefur Martin Schlüter einnig verið ráðinn til starfa sem framleiðandi hjá KMÍ. Öll eru þau í hlutastörfum.

Gréta Ólafsdóttir

Gréta Ólafsdóttir hefur víðtæka reynslu á sviði heimildamynda og hefur m.a. framleitt og leikstýrt heimildakvikmyndum í Bandaríkjunum, Evrópu og Íslandi. Gréta lærði ljósmyndun við School of Visual Arts í New York og hefur hún starfað sem kvikmyndaráðgjafi vegna heimildamynda bæði í Bandaríkjunum en einnig um nokkurra ára skeið hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands til ársins 2014. Gréta hefur sinnt ýmsum störfum á sviði kvikmynda og m.a. setið í ýmsum evrópskum dómnefndum. Heimildamyndir hennar hafa unnið til fjölda alþjóðlegra verðlauna og hefur hún m.a. verið tilnefnd til Emmy verðlauna fyrir bestu rannsóknar blaðamennsku fyrir heimildamyndina The Brandon Teena Story.

Guðný Halldórsdóttir

Guðný Halldórsdóttir býr yfir mikilli reynslu í kvikmyndagerð. Hún hóf feril sinn í kvikmyndagerð hjá RÚV sem skrifta árið 1976, síðan sem aðstoðarleikstjóri og skrifta í kvikmyndum á Íslandi, Svíþjóð og Englandi. Hún lauk námi frá London International Filmschool árið 1982 og stofnaði ásamt fleirum kvikmyndafyrirtækið UMBI árið 1983 sem framleiddi bæði leiknar kvikmyndir og heimildamyndir. Guðný hefur unnið margvísleg störf í kvikmyndum og sjónvarpsþáttagerð en er þekktust fyrir störf sín sem handritshöfundur og leikstjóri.

Martin Schlüter

Martin Schlüter lauk námi í framleiðslu og leikstjórn við þýsku kvikmynda- og sjónvarpsakademíuna (DFFB). Hann var styrkþegi á handritasmiðjunni Drehbuchwerkstatt Berlín og grunnnámskennari hjá DFFB. Martin hefur starfað sem framleiðandi og framleiðslustjóri bæði heimildamynda og leikinna kvikmynda hér á landi og víða í Evrópu í yfir tuttugu ár. Á árunum 2005 til 2006 var hann yfirmaður framleiðslu og alþjóðasamskipta hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands og starfaði síðan sem kvikmyndaráðgjafi til ársins 2018.

Kvikmyndamiðstöð Íslands býður Grétu, Guðnýju og Martin hjartanlega velkomin til starfa og hlakkar til samstarfsins.