Íslensk kvikmyndagerð á norrænum kvikmyndadögum í París
Norrænir kvikmyndadagar – Visions Nordiques: French Nordic Film Days – hefja göngu sína í París í þessari viku, miðvikudaginn 5. mars.
Markmiðið er að kynna franska áhorfendur fyrir nýrri norrænni kvikmyndagerð og efla samstarf milli franskra og norrænna kvikmyndagerðamanna.
Á kvikmyndadögunum verður sýnt úrval nýrra kvikmynda frá öllum Norðurlöndunum fimm. Alls eru 12 nýjar norrænar kvikmyndir á dagskrá. Opnunarmyndin er Snerting, í leikstjórn Baltasars Kormáks og verður einn aðalleikara myndarinnar, Pálmi Kormákur Baltasarsson, viðstaddur sýninguna og svarar spurningum að henni lokinni. Einnig verður kvikmynd Snævars Sölva Sölvasonar, Ljósvíkingar, sýnd auk Elskling, kvikmyndar hinnar norsk-íslensku Lilju Ingólfsdóttur. Dagskrá kvikmyndadaganna má finna á vef Visions Nordiques.
Viðburðurinn fer fram í samstarfi allra fimm norrænu kvikmyndastofnananna og miðstöðva, undir merkjum The Five Nordics, við frönsku kvikmyndastofnunina (CNC) og sænsku stofnunina í París, með stuðningi frá Norrænu ráðherranefndinni ásamt norrænu sendiráðunum í Frakklandi.
Samhliða sýningum á norrænum kvikmyndum fer fram bransadagskrá, þar sem tengsl milli franskra og norrænna kvikmyndagerðarmanna verða styrkt. Þar má nefna pallborð og kynningar á dreifingarmöguleikum, sjálfbærni í kvikmyndagerð, hæfileikamótun og samframleiðslu. Frekari upplýsingar um bransahluta viðburðarins má finna á vef CNC.