Um KMÍ
Á döfinni

13.11.2024

Evrópska kvikmyndaakademían verðlaunar Ljósbrot

Evrópska kvikmyndaakademían opinberaði í dag átta af sigurvegurum Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna 2024.

Á meðal þeirra er Evalotte Oosterop, sem hlýtur verðlaun fyrir förðun og hár fyrir kvikmyndina Ljósbrot eftir Rúnar Rúnarsson. Í umsögn dómnefndar segir að Evalotte takist í myndinni að sameina hið óvænta og sígilda í hár og förðun með eftirtektarverðum hætti.

Evalotte tekur við verðlaunum á verðlaunahátíðinni, sem fer fram 7. desember í Lucern í Sviss.

Þetta eru tíundu alþjóðlegu kvikmyndaverðlaunin sem Ljósbrot hlýtur.

„Við erum náttúrulega í skýjunum og voðalega stolt af Evalotte,“ segir Rúnar Rúnarsson leikstjóri. „Hún er mikil listakona og frábær samstarfsfélagi. Þetta var í fyrsta sinn sem við vinnum saman en hún féll strax vel inn í hópinn okkar og teymisvinnu. Hnefi af hæfileikum og frábær manneskja. Það er ekki hægt að óska sér betri samstarfsaðila.”