Ljósbrot í forvali til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna
Kvikmynd Rúnars Rúnarssonar, Ljósbrot, er í forvali til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna í flokki leikinna mynda í fullri lengd. Valið var kynnt á blaðamannafundi Evrópsku akademíunnar fyrr í morgun. Verðlaunahátíðin fer fram 7. desember í Lucerne í Sviss.
Síðan Ljósbrot var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes, þar sem hún var opnunarmynd Un Certain Regard, hefur hún hlotið fern alþjóðleg verðlaun og verið valin til sýninga á virtum kvikmyndahátíðum, svo sem alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto og Karlovy Vary í Tékklandi. Nýlega var einnig tilkynnt að stuttmynd Rúnars, O (Hringur), hefði verið valin í keppni stuttmynda á hinni virtu kvikmyndahátíð í Feneyjum sem fer fram í byrjun september.
„Þegar saman koma ótrúlega góður leikarahópur, frábært fagfólk og listafólk, þá geta stórkostlegir hlutir gerst,“ segir Rúnar Rúnarsson. „Við erum ótrúlega stolt af öllu þessu fólki og erum þeim þakklát fyrir að hafa skapað þetta fallega verk með okkur. Jarðvegur sem einkaaðilar og stjórnvöld hafa ræktað undanfarin ár hefur einnig verið ómetanlegur í öllu þessu ferli.”
Sagan gerist á fallegum vordegi þegar líf Unu snýst á hliðina á svipstundu og upphefst rússíbanaferð tilfinninga þar sem mörkin milli hláturs og gráturs, fegurðar og sorgar, verða stundum óskýr.
https://www.youtube.com/watch?v=wSP2_6VSutM
Myndin verður frumsýnd á Íslandi 28 ágúst. Með aðalhlutverk fara Elín Hall, Katla Njálsdóttir, Mikael Kaaber, Baldur Einarsson, Gunnar Kristjánsson og Ágúst Wigum.