Um KMÍ
Á döfinni

22.5.2024

Frumvarp um menningarframlag streymisveitna í samráðsgátt

Menningar- og viðskiptaráðuneytið hefur kynnt til samráðs drög að frumvarpi til laga um menningarframlag streymisveitna til eflingar íslenskri menningu og íslenskri tungu. Frumvarpið hefur verið lagt fram í samráðsgátt stjórnvalda.

Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ný skylda innlendra og erlendra streymisveitna til að greiða svonefnt menningarframlag til íslensks samfélags. Áætlað er að frumvarp um menningarframlag streymisveitna muni afla tekna sem renna til Kvikmyndasjóðs.

Í tilkynningu segir að á síðustu árum hafi samkeppni við alþjóðlegar streymisveitur og samfélagsmiðla haft neikvæð áhrif á rekstrarumhverfi og samkeppnisstöðu innlendra fjölmiðla. Það komi niður á framleiðslu innlends efnis og veiki þar með stöðu íslenskrar tungu.

Markmið frumvarpsins er að efla íslenska menningu og tungu með því að hvetja til fjárfestingar í framleiðslu á innlendu efni sem er að meginhluta á íslensku eða með aðra íslenska skírskotun.