Um KMÍ
Á döfinni

10.8.2023

Fár sýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto

Stuttmynd Gunnar Martinsdóttur Schlüter, Fár, verður sýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto, sem stendur yfir 7. - 17. september. Myndin er á meðal 42 verka frá 23 löndum sem sýnd verða í stuttmyndahluta hátíðarinnar.

Fár var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes í maí og hlaut hún þar sérstaka viðurkenningu. Myndin fjallar um einstakling sem tekst á við aðstæður sem reyna á siðferði mannskepnunnar í heimi sem er aftengdur við náttúruna. 

Sjá einnig: Besta hugsanlega byrjun sem stuttmynd getur fengið

Gunnur leikstýrir myndinni, skrifar handrit hennar, ásamt Anní Ólafsdóttur, og fer að auki með aðalhlutverk. Framleiðendur eru Sara Nassim og Rúnar Ingi Einarsson hjá framleiðslufyrirtækinu Norður. Salaud Morisset annast alþjóðlega dreifingu og sölu.

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Toronto, eða TIFF, er ein virtasta kvikmyndahátíð heims. Áður hefur verið tilkynnt að frumraun Ninnu Pálmadóttur, Tilverur, verði heimsfrumsýnd á hátíðinni í ár.