Kristín Þóra Haraldsdóttir vinnur til verðlauna á kvikmyndahátíðinni Mamers en Mars fyrir Lof mér að falla
Kristín Þóra Haraldsdóttir hlaut sérstaka viðurkenningu dómnefndar (Mentions Spéciales Prix d'interprétation féminine) fyrir leik sinn í Lof mér að falla eftir Baldvin Z á kvikmyndahátíðinni Mamers en Mars sem fór fram í Frakklandi dagana 15. - 17. mars.
Nýverið vann Kristín Þóra Edduverðlaunin sem besta leikkona í aukahlutverki fyrir hlutverk sitt í Lof mér að falla, en kvikmyndin hlaut alls fjórar Eddur á hátíðinni sem fór fram 22. febrúar síðastliðinn.
Að auki var Kristín Þóra valin í Shooting Stars hópinn fyrir árið 2019 þar sem European Film Promotion (EFP) samtökin velja árlega tíu unga og efnilega leikara og leikkonur sem hafa vakið sérstaka athygli í heimalandi sínu og á alþjóðavettvangi. Hópurinn var kynntur sérstaklega á Berlinale kvikmyndahátíðinni sem fór fram í febrúar.
Lof mér að falla var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto á síðasta ári, en þar fer Kristín með hlutverk Magneu á fullorðinsárunum sem hefur leiðst inn í harðan heim eiturlyfjafíknar.