Hálfur Álfur valin í keppni á RAI Film Festival, kvikmyndahátíð konunglegu mannfræðistofnunarinnar í Bretlandi
Hálfur Álfur, fyrsta heimildamynd Jóns Bjarka Magnússonar í fullri lengd, hefur verið valin í aðalkeppni RAI Film Festival, kvikmyndahátíð konunglegu mannfræðistofnunarinnar í Bretlandi , sem fram fer dagana 16.-28. mars næstkomandi. Kvikmyndahátíð RAI hefur verið haldin á tveggja ára fresti frá árinu 1980, og er á meðal þeirra virtustu á sviði etnógrafískra heimildamynda og sjónrænnar mannfræði.
Hálfur Álfur er á meðal þrettán mynda sem keppa til tveggja verðlauna í aðalflokkinum, þ.e. Rai Film Prize og Basil Wright Film Prize, sem nefnd eru eftir breska leikstjóranum og framleiðandum Basil Wright sem var frumkvöðull á sviði heimildamynda um miðja síðustu öld.
Hálfur Álfur vann dómnefndarverðlaun Skjaldborgarhátíðarinnar síðastliðið haust og hefur síðan þá verið sýnd á nokkrum evrópskum kvikmyndahátíðum og verið tilnefnd til verðlauna, meðal annars á Nordisk Panorama. Myndin er framleidd af þeim Jóni Bjarka og Hlín Ólafsdóttur fyrir SKAK bíófilm og með sölu og dreifingu erlendis fer Feel Sales.