Um KMÍ
Á döfinni

6.6.2018

Breytingar á ráðgjöfum hjá Kvikmyndamiðstöð

Martin Schlüter mun á næstunni láta af störfum sem kvikmyndaráðgjafi vegna heimildamynda hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands. Kvikmyndamiðstöð þakkar Martin kærlega fyrir ánægjulegt samstarf og óskar honum alls hins besta í þeim verkefnum sem hann tekur sér nú fyrir hendur.

Anna María Karlsdóttir framleiðandi hefur verið ráðin nýr ráðgjafi hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands.

Anna María Karlsdóttir býr yfir mikilli reynslu af íslenskri kvikmyndagerð þar sem hún hefur m.a. starfað sem sjálfstæður kvikmyndaframleiðandi um tveggja áratuga skeið. Samkvæmt þeim reglum sem gilda um störf ráðgjafa mun hún ekki koma að neinum verkefnum sem tengjast íslenskri kvikmyndagerð á meðan starfstíma stendur.

Í gegnum tíðina hefur hún einnig starfað hjá Kvikmyndasjóði við alþjóðasamskipti og kynningar á árunum 1991-1997 þar sem hún var jafnframt í stjórn Scandinavian Films,  var stjórnandi Kvikmyndahátíðar í Reykjavík frá 1998-2001 og var stofnandi og einn eigenda dreifingarfyrirtækisins Græna ljóssins frá 1997-2004. Anna María hefur einnig verið virk í félagsstörfum kvikmyndagerðarmanna þar sem hún var formaður Íslensku sjónvarps- og kvikmyndaakademíunnar, ÍKSA, frá 2006-2007, sat í stjórn SÍK árin 2009-2015 og  í Kvikmyndaráði frá 2013-2016 auk þess að hafa tekið þátt í starfi félagi kvenna í kvikmyndagerð á Íslandi, WIFT.

Kvikmyndamiðstöð býður Önnu Maríu hjartanlega velkomna til starfa og hlakkar til samstarfsins.